Móðurhlutverkið 🖤

Hefurðu ímyndað þér hvað sé það mikilvægasta sem þú gerir í lífinu? Hver sé þín stærsta áskorun? Þú tekur þessari áskorun og neglir hana! Ég er að sjálfsögðu að tala um móðurhlutverkið. Í dag er mæðradagur og ég fer því að hugsa til baka um lífið áður en ég varð móðir. Hvernig móðir mín tókst á við hlutverkið, hvernig ég stend mig í hlutverkinu og hvernig börnin mín munu koma til með að ala börnin sín.

Líf hennar snérist ekki um frama eða hennar persónulegu markmið. Allt snérist um okkur systkinin og okkar velferð.  

Mamma mín setti okkur systkinin alltaf í fyrsta sæti – við vorum og erum lífið hennar (sorry pabbi) og þannig vildi hún hafa það. Líf hennar snérist ekki um frama eða hennar persónulegu markmið. Allt snérist um okkur systkinin og okkar velferð. Mamma þráði ekkert heitar en að við værum hamingjusöm, heilbrigð og fangaði alltaf með okkur þegar við náðum markmiðum okkar.

Við lærum svo margt frá mæðrum okkar – hvernig við höldum heimili, eldum, hugum að börnunum okkar og svo er vissulega hægt að koma húmornum og gleðinni fyrir líka. Þrátt fyrir að við tökum ekki einu sinni eftir því. Ég er viss um að það sé svo margt sem við lærum frá mæðrum okkar án þess að vita nokkurn tímann af því. Við hljótum öll að verða einhver útgáfa af mæðrum okkar. Ég meina, hvernig getum við annað?

Af öllu því sem mamma kenndi mér er eitt sem stendur upp úr – eitthvað sem er í undirmeðvitundinni sem ég hef bara verið að uppgötva upp á síðkastið – nú þegar ég horfi á börnin mín sinna móðurhlutverkinu.  Að vera örugg í hlutverkinu er svo gríðarlega mikilvægt.

Finni ég fyrir óöryggi eða ótta í uppeldinu – finna börnin fyrir því. Þegar börnin mín voru að vaxa úr grasi var markmiðið fyrst og fremst að þau væru heilbrigð, hamingjusöm og sjáfstæð. Sem leikkona sem síðar fór í sjálfstæðan fyrirtækjarekstur – gaf ég mér ekki tíma til að hugsa gaumgæfilega um það hvernig ég ætti að ala börnin mín – ég bara gerði það (laus við ótta og óöryggi). 

Því ég vissi að ég hlyti að hafa lært sitthvað frá mömmu um móðurhlutverkið – með ástina í fyrirrúmi. Ég var í þokkalegum málum. Vonandi bara góðum málum.   

Ýmsar tilfinningar kvikna á þessum degi en leyfum okkur sem tökumst á við þetta kerfjandi verkefni sem móðurhlutverkið er að vera mannlegar. Heiðra ástríðu okkar fyrir því sem við gerum fyrir okkur sjálfar sem gerir okkur að þeim manneskjum sem við erum. Mín ástríða, sem ég geri fyrir mig sjálfa er ástríðan fyrir útivist og að fá að vera úti í náttúrunni – ég ætla að eyða tímanum í náttúrunni, klífa jökla og vera með móður náttúru.

Ég trúi því að börnin mín taki ástríðu mína fyrir útivist og hreyfingu til fyrirmyndar. Að þau viti að ég verði betri mamma þegar ég geri það sem lætur mér líða vel – fer út að leika! Það gerir mig hamingjusama og sterka!


Börnin þín eru framlenging af þér og þegar þau eignast sín eigin börn stækkar hjartað þitt enn meira, meira en ég hefði getað ímyndað mér. Ég er svo heppin að fá að fylgjast með dætrum mínum takast á við móðurhlutverkið – yfirvegaðar og öruggar. Ég er stolt móðir mæðra. Í janúar eignaðist næstelsta dóttir mín tvíburadætur þær Gígju og Sóley. Í dag er ég þakklát og stolt mamma og amma.

Eigið dásamlegan mæðradag – og munið, allir dagar eru mæðradagar  🖤